Kvenskörungur úr Kjósinni

 

   Heilir og sælir Gilsbakkarar góðir!

    Mig langar að minnast á langa langa langömmu ykkar Gilsbakkaranna, sem hét Guðbjörg Pálsdóttir f. 7.febrúar 1799, í Saurbæ, ólst upp í Neðri- Flekkudal. Flutti með móður sinni og stjúpa að  Norðurkoti , var vinnukona  1818 á Vallá í Kjós (þar hafa fleiri góðir í ættinni dvalið).  Síðar var hún vinnukona í Bólstaðarhlíð í Húnavatnssýslu.  Þar kynntist hún Eyfirðingnum Sveini Sveinssyni, er þangað var kominn í prestnám.   Ekkert varð úr prestnáminu , þar sem presturinn dó, og Sveinn framdi skírlífisbrot, með því að eignast dóttur með Guðbjörgu.  Þau fluttu inn í Eyjafjörð og þar settust Sveinn og móðir hans Halldóra að á Hólum, en Guðbjörg gerðist vinnukona að Gilsá.  Þau fóru svo að búa í Hólakoti.  Sveinn bóndi var lágvaxinn og grannholda, en Guðbjörg var mikil vexti og talin hafa karlmannsburði í gildara lagi, verkmikil, fjölhæf og hlífði sér ekki.  Þau eignuðust 7 börn.  Sveinn var lítt til búskapar fallinn og verklítill.  Hann hélt uppteknum hætti við lestur bóka og gætti þá einskis sem fram fór kring um hann. Var á almæli að stundum í sólskini og þerri lægi hann sunnan undir bæjarvegg og læsi, meðan konan og krakkarnir unnu af kappi við heyþurrkinn.  Ekki hafði hann fyrir að binda baggana af Hólakotstúninu, heldur gerði Guðbjörg það og bar þá á bakinu í heytóttina.  Ekki vildi hún heldur láta Svein sinn mæðast í því að rista heytorfið eða fara í dalgöngurnar á haustin, það gerði hún sjálf.  "Æji hann máske blotnaði í fæturnar og yrði kalt", en til þess mátti hún ekki hugsa.  Þegar Sveinn bóndi þurfti að bregða sér vestur yfir Eyjafjarðarána og svo stóð á að hross voru ekki við höndina og áin lítil, lét Guðbjörg ekki muna um að vaða yfir ána með bónda sinn á bakinu.  Þá var hún örugg um að honum yrði ekki kuldinn að tjóni.  Meðan börn þeirra voru ung smalaði Guðbjörg sjálf kvíaánum og var þá venjulega berfætt, einkum er blautt var á jörð.  Kvaðst hún vera vön því frá æskuárum í Kjósinni.  Nágrannakonur Guðbjargar létu stundum í það skína að þær vorkenndu henni fyrir vosbúðina og erfiðið sem hún legði á sig og ekki væri kvenmannsmeðfæri ,heldur væri það bóndans starf.  Þá var hún vön að afsaka Svein og segja: "Hann getur það ekki, ég er miklu færari til þess".  Þegar þau höfðu búið í Hólakoti í 33 ár, var það að ráði að Sveinn færi til Guðbjargar dóttur þeirra á Vatnsenda og þar dó hann 24.mars 1872 , þá 72 ára.  En Guðbjörg fór með dótturson sinn,  í húsmennsku að Hrísum til Maríu dóttur sinnar.  Guðbjörg  dó hjá Önnu dótturdóttur sinni í Árgerði 7.apríl 1898, þá hafði hún lifað 2 mánuði af hundraðasta aldursárinu.  Þetta er skrifað upp úr grein eftir Hólmgeir Þorsteinsson , sem nefnist "Kvenskörungur úr Kjósinni" sem birtist í  "Heima er best" árið 1964.  Ein dóttir Guðbjargar og Sveins hét Lilja og var langamma Jóa okkar á Gilsbakka.

ps. Jæja stelpur eigum við að vaða Skjóldalsána með karlana á bakinu, á næsta ættarmóti , nei annars ,ég vil heldur sitja  sunnan undir vegg og lesa!!!!!!!

                               Bestu kveðjur frá mömmu og tengdamömmu Jó(anna)  ritstjór (anna)

Hraunkotskerlingunni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Baldur Guðmundsson

Ég segir bara eins og atómskáldið Ólafur Ragnar "Já, Sæll, eigum við að ræða þetta eitthvað" !!

Jóhannes Baldur Guðmundsson, 15.9.2008 kl. 21:59

2 identicon

Mikið er gaman að vita af þessu "dugnaðar" geni sem við öll (konur og karlar) fengum frá Guðbjörgu

 kv Arna

Arna (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 11:45

3 identicon

Nú skil ég margt! Hann Gísli minn er náttúrulega svona "einsog hann er" vegna þess að ég er með genið hennar Guðbjargar!!   ...........en Arna mín! Ertu viss um að genið gangi EKKI BARA í kvenlegg? Kv.Ása

Ása (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 20:33

4 identicon

Nei það er kannski rétt systir góð ............. hafið ekki hugleitt það

kv Arna

Arna (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 17:25

5 Smámynd: Gilsbakkararnir

Hæ mín kæra Hraunkotskerling og takk fyrir síðast.

Ansi er þetta góð frásögn ,mér finnst ég eiga eitthvað pínu sameiginlegt með þessari fornmóður minni. Að vaða með karlana á bakinu gæti verið gaman að reyna sérstaklega af því að Víðir myndi pottþétt blotna í fæturna. Látum reyna á þetta.

Bestu kveðjur norður Strúna

Gilsbakkararnir, 20.9.2008 kl. 10:45

6 identicon

Elsku Strúna mín! Takk sömuleiðis fyrir síðast.  Ég var einmitt að hugsa um sum pörin og datt þá í hug að Víðir myndi blotna í fæturnar, Jakob myndi frekar leyfa mér að lesa og bera mig svo yfir, Jói Jaki sem alltaf er svo stríðinn, hann myndi eflaust sleppa Anett í miðri ánni.  Svo hafði ég áhyggjur af Siggu með Magga á bakinu og Örnu með Jóa Baldur, ég get ýmyndað mér að kjarnakonan Kristbjörg myndi drösla Skafta sínum yfir og Gunna á Árbakka sömuleiðis honum Góa sínum. Ása segði  Gísla örugglega, að ösla sjálfur yfir.  Ég veit ekki um hinar, en þær setja kannske hross undir karlana og slá svo duglega í, það er ágætis hugmynd!  En eru fleiri hugmyndir?  kveðja Hraunkotskerlingin.

Hraunkotskerlingin svarar (IP-tala skráð) 20.9.2008 kl. 17:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband